top of page
Félag umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa
Lög félagsins
I.
Nafn félagsins og heimilisfang.
1. gr.
Nafn félagsins er Félag umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa, á ensku: Icelandic Association of Patent and Trademark Representatives. Heimilisfang þess er í Reykjavík.
II.
Tilgangur félagsins.
2. gr.
Tilgangur félagsins er:
2.1. störf að verndun iðnréttinda.
2.2. að stuðla að sérfræðilegri og öruggri meðferð mála þeirra er um getur í 2.1. gr.
2.3. að vinna að endurbótum og framförum í löggjöf og framkvæmd lögverndar á sviði iðnréttinda.
2.4. að stuðla að góðri samvinnu félagsmanna sín á milli og gæta sameiginlegra hagsmuna þeirra í hvívetna.
III.
Félagsmenn.
3. gr.
Félagsmenn geta þeir einir orðið er uppfylla eftirgreind skilyrði:
3.1. hafa atvinnu af því að láta í té óháða aðstoð sína í málum varðandi lögvernd á sviði iðnréttinda.
3.2. hafa búsetu á Íslandi enda hafi þeir þá gott vald á íslensku máli.
3.3. hafa lokið lögfræðiprófi frá lagadeild Háskóla Íslands eða háskólaprófi í verkfræði frá Háskóla Íslands eða sambærilegri prófgráðu.
3.4. hafi sem lögfræðingur eða verkfræðingur eða með sambærilega prófgráðu unnið á vörumerkja- og einkaleyfastofu í minnst 5 ár, þar af unnið við vörumerkja- eða einkaleyfastörf sem aðalstarf í minnst 3 ár. Miðað er við að eigandi eða meðeigandi framangreindrar vörumerkja- og einkaleyfastofu sé félagsmaður.
Heimilt er að veita undanþágu frá skilyrðum þessarar greinar (3.4.), ef sérstaklega stendur á og ¾ hlutar félagsmanna á aðalfundi samþykkir.
3.5. að aðalfundur félagsins samþykki umsókn um félagsaðild.
4. gr.
Nú vill maður gerast félagsmaður samkvæmt 3. gr. og skal hann senda stjórn félagsins skriflega beiðni um það. Stjórn félagsins leggur beiðnina fyrir næsta aðalfund og ræður afl atkvæða úrslitum.
5. gr.
Félagsmenn skulu hafa góða samvinnu sín á milli.
6. gr.
Stjórn félagsins hefur heimild til að ákveða árgjöld félagsmanna eftir því sem hún telur nauðsynlegt hverju sinni.
7. gr.
Nú rís ágreiningur milli félagsmanna út af starfi þeirra og getur aðili borið málið undir stjórn félagsins. Gengst hún þá fyrir sáttum. Verði eigi sætst, getur aðili krafist úrskurðar stjórnarinnar.
8. gr.
Félagsmaður hættir að vera félagi:
8.1. hafi hann verið dæmdur fyrir brot, sem telst svívirðilegt að almenningsáliti,
8.2. hafi hann misst forræði bús síns,
8.3. hafi aðalfundur ákveðið að vísa félagsmanni úr félaginu,
8.4. hætti félagsmaður að reka atvinnu, er um getur í 1. mgr. 3. gr.,
8.5. greiði hann ekki, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir, lögboðin árgjöld til félagsins,
8.6. ef félagsmaður segir sig skriflega úr félaginu.
IV.
Stjórn félagsins og eftirlitsmaður.
9. gr.
Stjórn félagsins skipa 3 menn, er kjörnir skulu á aðalfundi til eins árs í senn og einn til vara. Stjórnin kýs sér sjálf formann, gjaldkera og ritara. Á aðalfundi skal ennfremur kjósa einn eftirlitsmann til að rannsaka reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár og gera athugasemdir sínar um þá.
V.
Félagsfundir.
10. gr.
Aðalfundur félagsins skal haldinn árlega í Reykjavík, ekki síðar en í maí ár hvert. Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:
10.1. skýrsla stjórnarinnar um starf félagsins fyrir sl. ár.
10.2. lagðir fram reikningar félagsins
10.3. kosning stjórnar og eftirlitsmanns reikninga félagsins
10.4. önnur mál.
11. gr.
Aðalfund skal stjórnin boða með sannanlegum hætti með a.m.k. 7 daga fyrirvara. Í fundarboði skal koma fram m.a. fundardagskrá. Aðalfundi stýrir kjörinn fundarstjóri, sem m.a. í upphafi skal kanna lögmæti fundar. Aðalfundur er löglegur ef minnst helmingur félagsmanna er mættur á fundinum. Séu ekki mættir nógu margir félagsmenn skv. 1. mgr. þessarar greinar, skal boða til aðalfundar að nýju og er sá fundur þá lögmætur, ef löglega er til hans boðað.
12. gr.
Í gerðabók félagsins skal rita stutta skýrslu um það, sem gerist á félagsfundi, einkum allar fundarsamþykktir. Fundargerð skal lesin upp í fundarlok og borin undir atkvæði. Fundarstjóri ásamt ritara undirskrifa fundargerð. Fundarskýrsla skal vera full sönnun þess, er farið hefur fram á fundinum. Skýrsla um stjórnarfundi skal ennfremur skráð í gerðabók og skulu viðstaddir stjórnarmenn undirrita hana.
13. gr.
Stjórn félagsins boðar til aukafunda í félaginu þrisvar á ári en þó ekki á tímabilinu júní, júlí og ágúst nema sérstakt tilefni sé til. Skylda til að boða til aukafunda fellur niður ef félagsmenn verða fleiri en 40. Stjórnin getur skipað félagsmenn í starfsnefnd.
14. gr.
Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða og renna eignir þess til samtakanna Geðhjálp.
15. gr.
Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi, enda greiði 2/3 fundarmanna atkvæði með breytingunni.
Lög þessi voru fyrst samþykkt á aðalfundi félagsins 1984. Þeim var breytt 1988, 1993, 2003, 2005 og 2017.
bottom of page